Viðskipti innlent

Skúli í Subway til rannsóknar hjá saksóknara

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Skúli Gunnar Sigfússon, athafnamaður og eigandi Subway­keðjunnar
Skúli Gunnar Sigfússon, athafnamaður og eigandi Subway­keðjunnar vísir/gva
Viðskiptagjörningar Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway, eru til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari en vill ekki segja til um hvert inntak rannsóknarinnar er eða hvar hún er á vegi stödd.

„Ég hef fengið það staðfest hjá embætti Héraðssaksóknara að sakamálarannsókn sé hafin og málinu hafi verið úthlutað til tveggja starfsmanna embættisins til rannsóknar,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri EK1923 (áður Eggert Kristjánsson heildverslun hf.).

Sveinn kærði Skúla og fleiri til Héraðssaksóknara vegna meintrar margháttaðrar refsiverðrar háttsemi í fjórum kærum fyrr á þessu ári. Meint brot Skúla varða meðal annars við refsiákvæði gjaldþrotalaga og ákvæði almennra hegningarlaga um fjársvik og skjalafals.

Hin meintu brot varða gjörninga milli EK1923 annars vegar og Sjöstjörnunnar ehf. og Stjörnunnar ehf. hins vegar. Skúli er fyrrverandi eigandi og stjórnarmaður EK en síðari félögin tvö eru bæði í 100 prósent eigu Skúla.

„Ég vísa þessu gjörsamlega á bug. Þetta er algjörlega tilhæfulaust og tíminn mun leiða það í ljós,“ segir Skúli, inntur eftir viðbrögðum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×