Innlent

Forsætisráðherra boðar samvinnu við mótun peningastefnunnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra vonar að endurskoðun peningastefnunnar verði lokið innan árs í samvinnu við þing og vinnumarkað. Breytt stefna geti vonandi stutt við lægra vaxtastig í landinu og þar með stuðlað að varanlegum friði á vinnumarkaði. Nýir ráðherrar munu sækja námskeið í vinnubrögðum stjórnarráðsins á næstu dögum.

Fyrsti fundur ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fór fram í forsætisráðuneytinu í morgun. Eitt af því sem breytist með nýrri ríkisstjórn er að Seðlabankinn færist undan fjármálaráðuneytinu og fer undir forsætisráðuneytið.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að á fundinum í morgun hafi siðareglur ráðherra verið kynntar fyrir ráðherrum og þeim afhent handbók.

„Og erum að undirbúa stutta kynningu á öllu því helsta sem skiptir máli fyrir nýja ráðherra og setjum lítinn stjórnarráðsskóla í gang í næstu viku. Það voru mörg praktísk atriði sem við vorum að ræða í morgun,“ segir Bjarni.

Það er í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að endurskoða peningamálastefnuna og segist forsætisráðherra vona að henni verði lokið á einu ári.

„Auðvitað er aðalatriðið að það verði vandað til slíkrar vinnu og eins og segir í stjórnarsáttmálanum viljum við gera það í nokkuð breiðu samkomulagi. Bæði við þing og vinnumarkað. En við erum þegar byrjuð að huga að því hvernig við setjum þá vinnu af stað,“ segir Bjarni. 

Meginmarkið núverandi peningastefnu er að halda verðbólgu niðri. Forsætisráðherra segir að skoða þurfi ramma stefnunnar af ýmsum ástæðum.

„Við erum að nefna sérstaklega að það sé eftirsóknarvert ef hægt er að styðja við lægra vaxtastig til lengri tíma. Það geti verið til þess fallið að skapa sátt og frið við vinnumarkaðinn. Það má spyrja sig hvort að við eigium að endurskoða verðbólgumarkmiðið, sjálfa vísitöluna, hversu skynsamlegt er að vera með nákvæmlega þetta tölusetta markmið og hvernig það eigi síðan að kallast á við markmið um efnhagslegan stöðugleika,“ segir forsætisráðherra.

Það verði aldrei verkefni Seðlabankans eins og ríkisstjórnar hverju sinni að ná niður vöxtum. Þar þurfi samvinnu við vinnumarkaðinn. Næsti ríkisstjórnarfundur er á þriðjudag, viku áður en þing kemur saman.

Reiknar þú með að fyrstu frumvörp fari að líta dagsins ljós þá?

„Það skal ég ekki alveg segja. En þingmálaskráin okkar mun þurfa að koma fram strax og þing kemur saman. Það kæmi mér ekki á óvart að það kæmu fram frumvörp inn í ríkisstjórnina í næstu viku,“ segir Bjarni Benediktsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×