Innlent

Afgreiðslutími vegabréfa lengdur í 17 daga: „Mér finnst þetta rosalegt óréttlæti“

atli ísleifsson skrifar
Kostnaður við að endurnýja vegabréf fyrir fólk á aldrinum 18 til 66 ára er 12.300 krónur. Hægt er að óska eftir hraðafgreiðslu en þá nemur kostnaðurinn 24.300 krónur.
Kostnaður við að endurnýja vegabréf fyrir fólk á aldrinum 18 til 66 ára er 12.300 krónur. Hægt er að óska eftir hraðafgreiðslu en þá nemur kostnaðurinn 24.300 krónur.
„Hvað grundvallar þennan auka 12 þúsund kall sem maður þarf að borga fyrir hraðari meðferð? Er þetta bara einhver hentugleikaskattur sem er við sárasaukamörk hjá fólki? Mér finnst þetta rosalegt óréttlæti,“ segir Guðbjartur Kjartansson smiður sem fór á skrifstofu sýslumanns fyrr í dag til að endurnýja vegabréf.

Þar komst hann að því að frá og með deginum í dag efur afgreiðslutími vegabréfa verið lengdur úr níu virkum dögum í sautján eða rétt tæplega tvöfaldast.

Á heimasíðu Þjóðskrár segir að ástæða lengingar afgreiðslutímans sé að tafir hafi orðið á sendingu vegabréfabóka sem áttu að afhendast fyrr í janúarmánuði frá erlendum framleiðanda. Leitað sé allra leiða að fá hluta sendingarinnar fyrr til að draga úr þeim óþægindum sem þetta kunni að valda almenningi.

Guðbjartur kveðst alls ekki ánægður með vinnubrögð yfirvalda. „Maður hefur alltaf farið tímanlega og endurnýjað sín vegabréf. Ég er með sjö manna fjölskyldu – fimm börn – og maður hefur þurft að gera þetta reglulega, nema hvað að nú er afgreiðslutímanum allt í einu skotið upp í sautján daga.“

24.300 krónur fyrir hraðari afgreiðslu

Kostnaður við að endurnýja vegabréf fyrir fólk á aldrinum 18 til 66 ára er 12.300 krónur. Hægt er að óska eftir hraðafgreiðslu en þá nemur kostnaðurinn 24.300 krónur. „Mér finnst þetta, eins og þessu er slengt fram nú, vera hentugleikaskattur. Mér finnst þetta hrópandi óréttlæti. Ég veit ekki hvort þau séu svona yfirkeyrð, eða hvað. Mér er eiginlega alveg sama. Þetta er gert án fyrirvara og tilkynninga, nema mögulega á vefnum eða útibúum,“ segir Guðbjartur.

Guðbjartur segist hafa farið á skrifstofu sýslumanns í morgun þar sem hann hafi látið vel í ljós óánægju sína, án þess þó að vera ókurteis.

„Það virðist ekki vera neinn sveigjanleiki með þetta. Þetta er ekki til þess fallið að skapa nokkra virðingu fyrir stofnuninni. Þessu er slengt í andlitið á okkur. Ég er á leiðinni út til Bretlands þann 1. febrúar þannig að ég hefði í raun og veru getað fengið vegabréfið þann dag en ég legg ekki í að taka neinn séns með það,“ segir Guðbjartur.

Á heimasíðu Þjóðskrár segir að tilkynning verði send út um leið og aðstæður breytast varðandi sendingar vegabréfsbókanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×