Innlent

Hælisumsóknum fækkaði í Evrópu en fjölgaði á Íslandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hælisumsóknum í þeim löndum sem við berum okkur saman fækkaði mikið árið 2016. Á Íslandi er þróunin allt önnur en árið 2016 sóttu þrefalt fleiri um hæli en árið á undan. Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir erfitt að finna útskýringar á þessari þróun.

Þýskaland er vinsælasti áfangastaður flóttamanna í Evrópu. 280.000 einstaklingar sóttu um hæli í Þýskalandi árið 2016 en umsóknirnar voru um 890.000 árið 2015.

Innanríkisráðherra landsins, Thomas de Maiziére, hefur sagt fækkunina vera vegna þess að nokkur ríki á Balkanskaga lokuðu landamærum sínum í fyrra.

Á sama tíma og hælisumsóknum hefur fækkað í þeim löndum sem við berum okkur saman við, hefur þeim fjölgað á Íslandi. Árið 2015 sóttu 31.000 manns um hæli í Noregi miðað við 3.500 manns árið 2016. Í Svíðþjóð sóttu 163.000 manns um hæli árið 2015 en 30.000 árið 2016. Í Finnlandi sóttu 32.500 manns um hæli árið 2015 en 5.500 árið áður.

Á Íslandi er staðan hins vegar allt önnur en 350 manns sóttu um hæli árið 2015 en umsóknir voru rúmlegta þrivsar sinnum fleiri árið 2016 eða 1130 talsins.

„Við erum ekki með neinar ábyggilegar skýringar í höndunum en það er alveg ljóst þegar við lítum yfir tölur síðasta árs að það hafa ákveðin þjóðarbrot verið mjög áberandi hjá okkur, fyrst og fremst frá Vestur-Balkan sem hafa verið að koma hingað og leita hælis. Afhverju við erum að sjá aukningu á meðan önnur ríki eru að sjá fækkun, við höfum ekki ábyggilega skýringu á því.“ Segir Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar.

Stofnunin sé ekki búin að setja niður langtímaspá fyrir árið 2016 en gert sé ráð fyrir að minnsta kosti 600 umsóknum. „Fyrstu vikur þessa árs fara rólega af stað en þó erum við ennþá að sjá nokkuð um hælisleitendur sem eru að koma til landsins. Enn og aftur við fengum mjög mikið af umsóknum á síðustu mánuðum ársins 2016 og við erum í raun ennþá að vinna úr því. Okkur tókst einnig að afgreiða tæplega 980 mál á síðasta ári þannig við erum nokkuð sátt við,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×