Hernaðaryfirvöld Suður-Kóreu segja að nágrannar sínir í norðri hafi skotið eldflaug á loft. Einungis vika er síðan Norður-Kórea skaut síðast eldflaug á loft sem sérfræðingar segja að hafi verið til marks um árangur í eldflaugatilraunum þeirra. Að þessu sinni flaug eldflaugin um 500 kílómetra og var henni skotið á loft nærri Pukchang. Þar misheppnaðist tilraunaskot í síðasta mánuði.
Samkvæmt Reuters er ekki talið að um langdræga eldflaug hafi verið að ræða.
Yfirlýst markmið Norður-Kóreu er að þróa kjarnorkuvopn og eldflaugar sem geta borið slík vopn til Bandaríkjanna. Það hafa þeir reynt um árabil í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og alla nágranna sína.
Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu segir að þjóðaröryggisráð landsins hafi verið kallað á neyðarfund og að herinn vinni að því að reikna út nákvæman feril eldflaugarinnar og hvernig eldflaug um var að ræða.
Þetta er áttunda tilraunaskot Norður-Kóreu á þessu ári og undanfarnar vikur hafa þeir hótað því að sprengja kjarnorkusprengju í tilraunaskyni.
