Innlent

Hringvegurinn lengist um tíu kílómetra í nótt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hringvegurinn lengist á miðnætti um tíu kílómetra en á sama tíma styttast malarkaflar hans um 24 kílómetra, allt vegna númerabreytingar á Austurlandi. Fjallað var breytinguna í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Lengsti malarkafli hringvegarins, 24 kílómetra langur, liggur um Breiðdal og Breiðdalsheiði á Austfjörðum. En á miðnætti hættir þessi kafli að vera hluti hringvegarins, sem allt frá því hann opnaðist árið 1974 hefur verið ókrýndur konungur íslenskra þjóðvega, enda með númerið eitt. 

Það er nefnilega verið að færa hringveginn á kaflanum milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur. Frá og með morgundeginum mun hann liggja um Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Stöðvarfjörð, í stað Breiðdalsheiðar.

Rauði leggurinn sýnir vegarkaflann milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur sem missir þjóðveganúmer 1. Gula lína sýnir hringveginn eftir breytinguna.Grafík/Guðmundur Björnsson.
Það er í raun ekki verið að breyta neinu nema vegnúmerum, sem þó kostar milli átta og tólf milljónir króna. Breytingunni er samt ætlað að beina ferðamönnum, sem aka eftir vegnúmerum, frá því að leggja á Breiðdalsheiði að vetrarlagi, og er þannig líkleg til þess að auka ferðamannaumferð í gegnum þorpin á fjörðunum. Hringvegurinn lengist við þetta um tæpa tíu kílómetra, og verður 1341 kílómetri, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. 

Og við það að strika yfir Breiðdalsheiðina styttast malarkaflar hringvegarins úr 32 kílómetrum niður í átta. Malbikshlutfallið á þjóðvegi númer eitt hækkar við þetta úr 97,6 prósentum upp í 99,4 prósent.

Vegurinn um Breiðdal og Breiðdalsheiði var lengsti malarkafli hringvegarins. Með því að fella þennan 24 km kafla út verða aðeins átta kílómetrar eftir ómalbikaðir af hringveginum.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Stærstu tíðindi morgundagsins í vegamálum Austfirðinga eru hins vegar opnun Norðfjarðarganga en vegna þeirra verða hátíðahöld alla helgina í Fjarðabyggð.

 


Tengdar fréttir

Hringvegurinn gæti styst um fjörutíu kílómetra

Hringvegurinn um Suðausturland, frá Öræfum til Berufjarðar, gæti styst um nærri fjörutíu kílómetra, miðað við framkvæmdir sem ýmist eru hafnar eða á teikniborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×