Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist bjartsýn og brosmild í dag. Hún vonast til þess að þjóðin velji Flokk fólksins til verksins en segist annars algerlega æðrulaus.
„Ég er algerlega æðrulaus. Bjartsýn og brosandi. Það er ekki hægt annað. Þetta er svo fallegur dagur,“ segir Inga í samtali við Vísi. Hún fer einnig fram á að þegar lesendur lesi þetta verði lagið „Fallegur dagur“ spilað undir. Lesendur geta sett það í gang hér að neðan, og haldið svo áfram að lesa þar fyrir neðan.
Inga segist engar væntingar hafa varðandi árangur í dag og það sé kjósenda að ráða því.
„Við vonumst til þess að fólkið okkar vilji velja okkur til verksins. Það er bara þannig.“
„Ég verð bara úti að skoppa í sólinni, hitta fólkið og drekka meira kaffi. Ég er búin að drekka mjög mikið kaffi í dag,“ segir Inga hlæjandi.
Flokkur fólksins verður með útvarpsútsendingu frá kosningakaffi flokksins í Glersalnum í Kópavogi í dag.
„Við tökum gesti og gangandi tali hérna. Ekki ég. Við erum með glæsilega unga menn sem eru að gera þetta. Vera svolítið öðruvísi og hafa gaman.“
„Það er bara bjartsýni og bros hérna. Það gerist að sjálfu sér þegar það er svona fallegt verður. Það er ekki hægt annað,“ segir Inga.
Innlent