Innlent

Einkaummæli blaðamanns á Twitter ekki efni siðanefndar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, sagði Atla Má hafa farið mikinn í umfjöllun sinni um skjólstæðing sinn.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar, sagði Atla Má hafa farið mikinn í umfjöllun sinni um skjólstæðing sinn.
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur vísað frá kæru á hendur Atla Má Gylfasyni, blaðamanni á Stundinni, fyrir ummæli sem hann viðhafði á Twitter um Guðmund Spartakus Ómarsson.

Telur kærandi að ummælin sem birt voru á Twitter „… hvernig væri nú að hjálpa til við að upplýsa mannshvarf í stað þess að standa í lögsóknum eins og aumingi?” feli í sér brot á siðareglum.

Í kærunni segir lögmaður Guðmundar að Atli Már hafi farið mikinn í umfjöllun sinni um Guðmund í fjölmiðlum og muni þurfa að svara fyrir umfjöllun sína fyrir dómstólum. Kærunni var því vísað frá en vinnureglur siðanefndarinnar segja að sé óafgreiddu kærumáli fyrir siðanefnd skotið til dómstólar vísi nefndin málinu samstundis frá, hvaða stigi sem málið kann að vera innan siðanefndar.

Þá kemst siðanefnd einnig að þeirri niðurstöðu að ummæli Atla Más tengist ekki starfi hans sem blaðamanns og séu því ekki innan lögsögu siðanefndar BÍ.

„Þau eru ekki hluti af ritstjórnarstörfum hans heldur tjáning einstaklings á samskiptamiðli. Um Twitter hlýtur sama að gilda og Facebook; þar sem einstaklingar nýta sér tjáningarfrelsi sitt og ef færsla tengist ekki ritstjórnarstörfum þá eru slík ummæli ekki innan lögsögu siðanefndar BÍ,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

„Öðruvísi myndi hátta til ef viðkomandi Facebook-síða eða Twitter-reikningur væru sérstaklega beintengd við fjölmiðil og ummæli á slíkum vettvangi þá beintengd ritstjórnarstörfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×