Fótbolti

Finnbogasynir eru 75 prósent af framlínu íslenska landsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kjartan Henry, Alfreð og Kristján Flóki Finnbogasynir.
Kjartan Henry, Alfreð og Kristján Flóki Finnbogasynir. Mynd/Samsett
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, gerði breytingu á landsliðshópi sínum um helgina þegar hann kallaði á framherjann Kristján Flóka Finnbogason.

Kristján Flóki kemur inn í liðið fyrir Björn Bergmann Sigurðarson sem er meiddur. Framundan eru leikir á móti Tékklandi og Katar á æfingamóti í Katar.

Heimir gæti nú farið langt með að búa til einn allsherjar misskilning meðal mótshaldara í Katar því nú eru komnir þrír Finnbogasynir í íslenska landsliðið.

Kristján Flóki bætist í hóp þeirra Alfreðs Finnbogasonar og Kjartans Henry Finnbogasonar. Í raun eru Finnbogasynir nú 75 prósent af framlínu íslenska landsliðsins.

Alfreð Finnbogason leikur með þýska liðinu Augsburg og Kjartan Henry Finnbogason spilar með Horsens í dönsku úrvalsdeildinni.

Eini framherji Íslands í leikjunum við Tékkland og Katar sem ekki er Finnbogason er Viðar Örn Kjartansson leikmaður ísraelska liðsins Maccabi Tel-Aviv.

Í tvö síðustu skipti sem Björn Bergmann Sigurðarson hefur þurft að draga sig út úr landsliðshópnum vegna meiðsla þá hefur Heimir Hallgrímsson kallað á Finnbogason en þó ekki sama Finnbogason.

Þegar Björn Bergmann datt út úr landsliðsverkefninu í október þá kallaði Heimir á Kjartan Henry Finnbogason sem svo hélt sæti sínu í landsliðshópnum. Nú kallaði Heimir eins og áður sagði á Kristján Flóka Finnbogason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×