Knattspyrnukonurnar Glódís Perla Viggósdóttir og María Þórisdóttir mætast með liðum sínum í Meistaradeild kvenna í fótbolta í þessum mánuði en mikil reiði er innan sænska félagsins Rosengård þar sem að sænsku sjónvarpsstöðvarnar sýna sænska liðinu lítinn áhuga.
Engin sænsk sjónvarpsstöð hefur áhuga á því að sýna Meistaradeildarslaginn á milli Rosengård og Chelsea í sextán liða úrslitum keppninnar. Forráðamenn Rosengård eru mjög ósáttir með þetta og kalla eftir því að stelpunum í sænska fótboltanum verði sýnd meiri virðing.
„Við eigum skilið meiri virðingu í jafnréttisþjóðfélagi,“ sagði Håkan Wifvesson, framkvæmdastjóri Rosengård við Expressen.
Þegar Rosengård lenti á móti enska stórliðinu Chelsea voru forráðamenn félagsins vissir um að sænsku sjónvarpsstöðvarnar vildu allar sýna leikinn. Annað hefur komið á daginn.
„Engin sænsk sjónvarpsstöð vill sýna leikinn. Ef að þetta væri leikur í Meistaradeildinni hjá körlunum þá hefði þetta aldrei gerst. Það er mikil synd að menn séu ekki að nýta tækifærið að sýns sænska kvennafótboltann þegar hann er í Meistaradeildinni, “ sagði Wifvesson.
„Við eigum skilið meiri virðingu í jafnréttisþjóðfélagi. Þetta eru tvö öflug félög og tvö mjög góð lið í Meistaradeildinni,“ sagði Wifvesson allt annað en sáttur.
Félag Glódísar kallar eftir meiri virðingu fyrir stelpunum sínum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
