Innlent

Ævintýraleg þátttaka í mergæxlisátaki

Um samstarfsverkefni Landspítala, Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands er að ræða - 148.000 manns var boðin þáttaka.
Um samstarfsverkefni Landspítala, Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands er að ræða - 148.000 manns var boðin þáttaka. vísir/teitur
Nú þegar hafa um 72 þúsund Íslendingar skráð sig til þátttöku í blóðskimunarátakinu Blóðskimun til bjargar, sem er þjóðarátak gegn mergæxlum.

Sigurður Yngvi Kristinsson, læknir og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, segir ganginn í átakinu með hreinum ólíkindum, enda aðeins fjórir mánuðir síðan skráning hófst.

Sigurður Yngvi Kristinsson
„Því til viðbótar erum við komin með 14.000 blóðsýni í hendur nú þegar,“ segir Sigurður Yngvi en þegar þeir sem skrá sig til þátttöku leita til læknis og fara í blóðtöku vegna einhvers krankleika þá ratar hluti sýnisins til þeirra sem standa að rannsókninni á mergæxlum. Það er ólæknandi sjúkdómur þar sem einkenna verður oft ekki vart fyrr en alvarleg áhrif á heilsuna eru þegar komin fram.

„Ég held að þessi gangur í verkefni sem þessu sé óþekkt – það er magnað hvað þetta hefur gengið vel,“ segir Sigurður Yngvi sem telur að rúmlega 70.000 manns dugi til að svara grunnspurningum átaksins.Áhugi á verkefninu nær langt út fyrir landsteinana – en nú er í sýningu hjá sjónvarpsrisanum bandaríska CNN sérstakur þáttur um Ísland. Þar fjallar læknirinn Sanjay Gupta um rannsóknina. Þátturinn var tekinn upp fyrir þremur vikum, en þess má geta að Gupta kom til greina þegar Barack Obama valdi landlækni Bandaríkjanna við upphaf forsetatíðar sinnar.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×