Vigdís Jónsdóttir, FH, tryggði sér gullverðlaun í sleggjukasti á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fer á Selfossi í dag.
Þessi fremsta sleggjukastkona landsins kastaði kúlunni 55,67 metra í dag og dugði það henni til sigurs. Rut Tryggvadóttir, ÍR, varð í öðru sæti með kast upp á 48,94 metra og Guðný Sigurðardóttir úr FH var í því þriðja eftir að kasta sleggjunni 43,81 metra.
Vigdís, sem fædd er árið 1996, setti Íslandsmet í greininni fyrr á árinu þegar hún kastaði sleggjunni 61,77 metra. Tryggði hún sér þar með þátttökurétt á Evrópumóti U23 ára sem fram fer í Póllandi um næstu helgi.
Hún var talsvert frá Íslandsmetinu í dag, köst hennar í seríunni voru upp á 54,96 m, 55,67 m, 55,60 m og 55,13 metra og gerði hún tvisvar ógilt.
Vigdís hreppti gullið í sleggjukasti

Tengdar fréttir

Vigdís stórbætti Íslandsmet sitt
Vigdís Jónsdóttir bætti Íslandsmet sitt í sleggjukasti um tæpa þrjá metra á Góu móti FH í Kaplakrika í dag.

Þessi urðu Íslandsmeistarar í frjálsum íþróttum í dag
Níu karlar og sjö konur urðu Íslandsmeistarar í frjálsum íþróttum í dag á 90. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fór fram á Þórsvelli á Akureyri.