Þrátt fyrir miklar þreifingar síðustu mánuði og sögusagnir um að allt sé nánast klappað og klárt er langt í að bardagi Conor McGregor og Floyd Mayweather verði að veruleika.
Slagurinn stendur auðvitað fyrst og síðast um peninga. Það sem talinn er vera erfiðasti hjallinn er hversu mikið UFC á að fá í sinn hlut.
Conor og Mayweather skipta því fé sem kemur inn á milli sín og svo þarf UFC að fá sinn skerf af hluta Conors þar sem hann er á samningi hjá þeim. Þar eru menn ekki sammála um hversu mikið UFC ætti að fá.
Frændi Floyd Mayweather segist hafa heimildir fyrir því að UFC vilji fá 80 prósent af helmingi Írans. Það sættir Conor sig ekki við.
„Málið mjakast áfram en það er ekki nálægt því að klárast. Ég myndi segja ykkur ef við værum nálægt því að skrifa undir samninga en það er enn langt í land,“ sagði Dana White, forseti UFC.
