Erlent

Höfða mál vegna sjálfsvígs dóttur sinnar í kjölfar nauðgunar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Megan stundaði nám við Háskólann í Alabama þegar árásin átti sér stað.
Megan stundaði nám við Háskólann í Alabama þegar árásin átti sér stað. Vísir/AFP
Foreldrar Megan Rodini, tvítugs háskólanema sem svipti sig lífi eftir að nauðgunarkæra hennar var felld niður, hafa höfðað mál gegn árásarmanni hennar, háskólanum í Alabama og lögreglunni sem fór með rannsókn málsins.

Foreldrar hennar telja að Háskólinn í Alabama og lögregluyfirvöld hafi farið illa með mál hennar. Í ákærunni segir að komið hafi verið fram við Megan sem sakborning í málinu en ekki sem þolanda. Þá segir að skólayfirvöld hafi brugðist henni og ekki veitt henni nægan stuðning.

Megan Rondini hitti Terry Bunn Jr á vinsælum bar í borginni Tuscaloosa. Fjölskylda Bunn er áhrifamikil í borginni en þau eiga þar og reka verktakafyrirtæki. Rondini sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og mögulega byrlað ólyfjan á heimili Bunn. Hann hélt því fram að þau hafi bæði verið samþykkt samförunum.

Foreldrar Megan segja að lögregla hafi lagt of mikla áherslu á gjörðir hennar eftir árásina. Hún tók með sér byssu þegar hún yfirgaf heimili Bunn og þrjá dollara til að eiga fyrir leigubíl heim. Við yfirheyrslur sagðist hún hafa tekið byssuna til að tryggja öryggi sitt.

Skipti um skóla og þjáðist andlega

Cindy og Michael Rondini, foreldrar Megan, telja að Bunn hafi sloppið við ákæru vegna áhrifa fjölskyldu hans í samfélaginu.

Í kjölfar atviksins hætti Megan Rondini námi við Háskólann í Alabama og fluttist heim til foreldra sinna í Texas. Þar þjáðist hún af þunglyndi, kvíða og áfallastreituröskun sem fjölskylda hennar segir hafa leitt til sjálfsvígs hennar í febrúar árið 2016.

Háskólinn í Alabama sagði í yfirlýsingu við fréttastofu CBS að skólayfirvöld hafi ekki brugðist Megan og að velferð hennar hafi verið í forgangi í kjölfar árásarinnar.

Lögmaður Bunn sagði að engin nauðgun hefði átt sér stað þessa kvöld.

Rondini-fjölskyldan hefur sagt að ef þeim verði dæmdar einhverjar bætur muni sá peningur renna óskiptur til góðgerðarmála sem styðji við þolenda kynferðisofbeldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×