Innlent

Sektargreiðslur vegna farsímanotkunar áttfaldast: „Kannski fullbratt í einu skrefi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að svo virðist sem að 5.000 króna sektin fyrir að nota farsíma undir stýri hafi ekki nægilegan fælingarmátt.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að svo virðist sem að 5.000 króna sektin fyrir að nota farsíma undir stýri hafi ekki nægilegan fælingarmátt. Vísir
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að tillögur ríkissaksóknara um að áttfalda sektargreiðslur vegna farsímanotkunar undir stýri hafi ekki verið teknar fyrir á vettvangi stjórnar félagsins.

Hann segir að svo virðist sem að 5.000 króna sektargreiðslan sem ökumenn fái nú fyrir að nota farsíma undir stýri hafi ekki nægilegan fælingarmátt en þó sé það kannski fullbratt að hækka sektina upp í 40 þúsund krónur í einu skrefi.

„Ein hlið á þessu er að það tala í síma undir stýri er mikill ósiður og stórhættulegt. Þá er ekki bara sá sem talar sá eini sem máli skiptir heldur allir sem í umferðinni eru og það er því miður ákveðin þróun slysa sem má tengja símanotkun en þetta er kannski fullbratt í einu skrefi,“ segir Runólfur í samtali við Vísi.

Eins og áður liggja fyrir tillögur þess efnis að hækka sektargreiðslur fyrir farsímanotkun upp í 40 þúsund krónur. Þá er til skoðunar að breyta umferðarlögum á þann veg að algjört bann verði sett við því að handleika síma undir stýri.

 

„Það tóku gildi lög núna á vormánuðum þessa árs í Bretlandi þar sem þeir tóku ansi djúpt í árinni, getum við sagt, og það eru fleiri þjóðir sem hafa gert slíkt hið sama. Þeir til dæmis banna það að ökumaður sé að handleika síma á meðan á akstri stendur,“ sagði Einar Magnús Magnússon, sérfræðingur í öryggis-og fræðsludeild Samgöngustofu, í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær og bætti við að hér á landi yrði horft til þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×