Innlent

Slökkviliðsmenn fengu yfir sig sjóðandi heita olíu við slökkvistarf á Egilsstöðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun.
Gallar slökkviliðsmanna eyðilögðust og þá brenndist einn slökkviliðsmaður á hendi þrátt fyrir að vera í hanska við slökkvistarf á Egilsstöðum í dag þar sem slökkviliðsmenn fengu yfir sig fljótandi og sjóðandi olíu.

Eldur kom upp í loftháf yfir grilli í eldhúsi veitingastaðarins Salt Cafe & Bistro í morgun að Miðvangi 2. Eldurinn barst úr háfnum í loftræstikerfi hússins en þar eru mörg fyrirtæki með starfsemi og þurfti að rýma húsið vegna eldsins.

„Þetta horfði nú ekki vel í upphafi. Þetta var eldur í loftræstiröri sem var dálítið lágt og erfitt að komast að því. Það var dálítil hætta að eldurinn væri kominn út fyrir rörið þannig að við þurftum að saga það í sundur á nokkrum stöðum og þannig tókst okkur að slökkva. En þegar það kemur eldur í svona rör þá bráðnar fita sem sest inn í þau og þarna verður þá fljótandi, sjóðandi olía og eldur. Út af því við þurftum svo að saga í sundur til að komast að eldum en við það kemur fljótandi, sjóðandi olía yfir okkur þannig að það eyðilögðust hérna gallar og einn slökkviliðsmaður fékk roða á hendi þótt hann væri með allar verjur sem lögboðnar eru,“ segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi í samtali við Vísi.

Alls tóku níu slökkviliðsmenn þátt í slökkvistarfinu sem fór að mestu fram í gangi eftir endilöngu rýminu þar sem veitingahúsið er. Rjúfa þurfti loft þar sem farið var að sviðna á stöðunum í kringum loftræstirörið og bráðna niður plastkaplar og rafmagnskaplar. Þá leit út fyrir að það myndi kvikna í á stöðum í kringum það en slökkviliðinu tókst að koma í veg fyrir það.

Slökkvistarfi er lokið en lögreglan mun rannsaka eldsupptök. Þá er starfsmenn sem þurftu að rýma húsið komnir aftur inn og búið að setja rafmagn aftur á þann hluta hússins þar sem Salt Cafe & Bistro er ekki með starfsemi.


Tengdar fréttir

Eldur á Egilsstöðum

Eldur kom upp í veitingastaðnum Salt Cafe & Bistro á Egilsstöðum nú í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×