Innlent

Ölvuð með börnin laus í bílnum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ökumaður var grunaður um ölvun við akstur og hafði börn sín laus í bílnum.
Ökumaður var grunaður um ölvun við akstur og hafði börn sín laus í bílnum. Vísir/Eyþór
Bifreið var stöðvuð á Reykjanesbraut við Sprengisand rétt eftir 17 í gær. Ökumaðurinn var grunaður um ölvun við akstur og var með börn sín tvö, 5 og 6 ára, í bifreiðinni. Börnin voru ekki fest með sérstökum öryggisbúnaði. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ökumaðurinn, sem var móðir barnanna, og börnin voru færð á lögreglustöð. Þangað mættu svo fulltrúi barnaverndar og faðir barnanna en ökumaðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Þá var bifreið stöðvuð í Auðbrekku rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi en ökumaðurinn var aðeins 16 ára og hafði því aldrei öðlast ökuréttindi. Hann var einnig grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna auk vörslu fíkniefna. Ökumaðurinn, ásamt farþega í bifreiðinni, var fluttur á lögreglustöð þar sem málið var unnið með aðkomu foreldra og tilkynningu til barnaverndar.

Ökumaður bifreiðar, sem stöðvuð var á Lambhagavegi við Reynisvatn laust fyrir 18 í gær, var einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var sviptur ökuréttindum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×