Innlent

„Það mega margir verða voða hneykslaðir á mér, ég hef bara gaman af því“

Birgir Olgeirsson skrifar
Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri.
Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri. Vísir/GVA
Hrafn Gunnlaugsson, kvikmyndaleikstjóri og fyrrverandi framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins, deildi í gær sögu af útvarpsráðsfundi þar sem hann vitnaði í leikkonu sem sagðist halda að lífið yrði leiðinlegt ef ekki yrði nein kynferðisleg áreitni. 

Leikstjórinn segist í samtali við Vísi rifja þessa sögu upp vegna umræðunnar í þjóðfélaginu um kynferðislega áreitni  en Hrafn vill meina að hún sé að mörgu leyti hlægileg. 

Frá því í byrjun vikunnar hafa konur í stjórnmálum í öllum flokkum sagt frá kynferðislegri áreitni, misrétti og kvenfyrirlitningu sem þær verða fyrir í starfi frá félögum sínum. 

Í síðustu viku greindi Vísir frá því að Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara, hefði óskað eftir því að valdaójafnvægi og kynferðisleg áreitni innan leiklistarsamfélagsins á Íslandi yrði rannsökuð af fagfólki. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í samtali við Vísi í kjölfarið að slík rannsókn væri í algjörum forgangi og erindi Birnu til skoðunar innan ráðuneytisins. 

Um stöðuuppfærslu sína vildi Hrafn lítið segja annað en að hann hefði sett þetta á Facebook í gær því honum þyki þessa umræða vera komin út í öfgar. 

„Það mega margir verða voða hneykslaðir á mér, ég hef bara gaman af því,“ segir Hrafn. 

Eftir Hrafn liggur fjöldi kvikmynda en hann var einnig leiklistarráðunautur RÚV á árunum 1977 til 1982, dagskrárstjóri 1987 til 1989 og framkvæmdastjóri RÚV árið 1993 til ársins 1994. 

Hrafn Gunnlaugsson hefur sent frá fjölda kvikmynda ásamt því að starfa nokkuð fyrir RÚV, þar á meðal sem dagskrárstjóri og framkvæmdastjóri.Stöð 2
„Fannst dálítið hugrekki að segja þetta“

Hann segir umræðu hafa átt sér stað um kynferðislega áreitni þegar hann sat fund útvarpsráðs fyrir margt löngu. Þá hafi umræðan um kynferðislega áreitni verið tiltölulega ný af nálinni. 

„Þar höfðu karlmenn verið að tjá sig óskaplega mikið um þetta og létu sig mjög hneykslaða. Þá hrökk þessi lína upp úr leikkonunni: „Mikið held ég að lífið yrði leiðinlegt ef það væri ekki nein kynferðisleg áreitni.... Hvaða teprugangur er þetta,“ rifjar Hrafn upp. 

Hrafn segir að rétttrúnaðarstemning hefði myndast á þessum fundi útvarpsráðs áður en leikkona lét þessi orð falla. „Það þarf oft manneskju til að segja eitthvað svo menn átti sig á því að það er enginn rétttrúnaður til í þessu. Mér fannst dálítið hugrekki að segja þetta,“ segir Hrafn sem vill ekki gefa upp hvaða leikkona það var. 

„Ég held að það sé ekki nokkur karlmaður sem hefur ekki gert sig sekan um kynferðislega áreitni í strangasta skilningi þess hugtaks,“ segir Hrafn og vill meina að mörkin séu orðin óljós, hvað sé kynferðisleg áreitni og hvað ekki.  

Bubbi svaraði Hrafni

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens svaraði hins vegar Hrafni í athugasemd við færsluna á Facebook. Þar sagði Bubbi að það taki enginn kynferðislegri áreitni fagnandi því slík hegðun hafi vond áhrif. Daður sé allt annað.

Hrafn svarar Bubba með því að segja að með tilvitnuðum orðum leikkonunnar hafi verið mögulega átt við athæfi eins og daður. „Sem getur svo sem er líka tekið á sig óhæfar myndir. Enda féllu þessi orð fyrir áratugum og hugtakið kynferðisleg áreitni ekki búið að fá á sig þann skýra stimpil sem það hefur í umræðunni í dag.“

Á vef Vinnueftirlitsins er að finna skilgreiningu á kynferðislegri áreitni en þar segir: „Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.“

„Málefnið er alvarlegt“

Hrafn vill meina að miðað við umræðuna um málefnið síðastliðnar vikur þá sé orðið erfitt að sýna hrifningu sína á annarri manneskju án þess að það megi túlka það sem kynferðislega áreitni. 

„Málefnið er alvarlegt og sjálfsagt að fjalla um, en það er nánast að málefnið verði hlægilegt því það er búið að færa umræðuna inn á það stig. Ef þú situr með konu inni á fundi  og rekur augun á brjóstin á henni og tekur eftir því, á þá konan ekki bara að hylja betur á sér brjóstin ef hún er farin að upplifa kynferðislega áreitni og hvenær er viðkomandi að bjóða upp á kynferðislega áreitni?“ spyr Hrafn. 

„Til hvers er kona að sýna á sér hálf brjóstin ef hún vill ekki láta taka eftir sér til hvers erum við yfirleitt að greiða okkur eða  klæða okkur upp eða gera eitthvað ef við viljum ekki að hitt kynið taki eftir því? Ef við erum að beina athygli að okkur verðum við að vera menn og konur til að taka því. Ég veit ekki um nokkra manneskju eða ósköp fáar sem hafa ekki ánægju að því að vekja aðdáun. Ef fólk vill ekki vekja aðdáun ætti það að klæða sig eftir því.“

 

Hrafn vill meina að ekki sé hægt að hreinsa út eðlishvöt mannfólks með lögum og reglum.Vísir
Mannfólk hafi ákveðna eðlishvöt að mati Hrafns

Kynferðisleg áreitni er skilgreind af yfirvöldum en Hrafn segir mannfólk vera dýrategund sem hafi ákveðna eðlishvöt. „Og þú hreinsar hana ekki út þó þú sért með einhver lög og reglur,“ segir Hrafn. 

Hann segir að auðvitað eigi að hegða sér kurteislega og sýna öðrum ást og virðingu, en til að ná sambandi við manneskju sem viðkomandi er hrifinn af þurfi einhvern veginn að láta þá hrifningu í ljós, að mati Hrafns. Vill hann meina að miðað við umræðuna nú á dögum sé það erfitt án þess að gerast sekur um einhverskonar kynferðislega áreitni.

Í síðustu viku var Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi bankastjóri, harðlega gagnrýndur eftir að hann hvatti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, til að huga að ímynd sinni vegna prófílmyndar sem hún hafði notað á Facebook.

Áslaug er ein hundraða kvenna sem ritað hafa nafn sitt undir áskorun stjórnmálaflokka á að taka á kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni karla í íslenskum stjórnmálum. Ragnar lét þessi orð falla eftir að Áslaug hafði rætt málið í Kastljósi í liðinni viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×