Innlent

Ekki lengur þörf á auknu eftirliti vegna hugsanlegra hryðjuverka

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Þetta er síðasti dagurinn í dag," segir Haraldur Johannessen.
"Þetta er síðasti dagurinn í dag," segir Haraldur Johannessen. vísir/vilhelm
Ekki er talin þörf á að halda áfram auknu eftirliti hér á landi vegna hryðjuverka, segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Eftirlit var aukið eftir árásina í Svíþjóð í byrjun mánaðar en í því fólst að sérsveitarmönnum á vakt var fjölgað og lögreglulið beðin um að vera sérstaklega á varðbergi.

„Þetta er síðasti dagurinn í dag. Það var okkar mat að það væri ekki þörf á auknu eftirliti lengur heldur en var. Síðan getur það breyst snögglega, en það er ekkert sem bendir til þess núna,“ segir Haraldur í samtali við Vísi.

Haraldur segir ekkert benda til þess að ódæðisverk séu yfirvofandi, en tekur fram að lögreglan sé ávallt á varðbergi. Verklag vegna hryðjuverka hafi verið virkjað hérlendis þar sem ekki hafi verið vitað í fyrstu hverjir stóðu að baki voðaverkinu.  

„Við vildum að sjálfsögðu vera við öllu búin þar sem ekki lá ljóst fyrir hver hefði staðið að þessu ódæði í Stokkhólmi og hvort það beindist eitthvað út fyrir Svíþjóð og til annarra Norðurlanda,“ segir hann.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra ákvað að 7. apríl síðastliðinn að virkja verklag vegna hryðjuverkaárása í nágrannalöndum vegna árásarinnar í miðborg Stokkhólms, þar sem fjórir létu lífið. Viðbúnaðarstig var ekki hækkað.

Var því beint til lögreglunnar á Suðurnesjum að vera sérstaklega vakandi fyrir flugi frá Svíþjóð og var sérsveitarmönnum á vakt fjölgað. Þá var því beint til lögregluliða að vera á varðbergi fyrir grunsamlegum einstaklingum og óvenjulegum atburðum sem gætu tengst áformum um stórfellda ofbeldisglæpi.,

Jafnframt fylgdist greiningardeild og alþjóðadeild ríkislögreglustjóra með samskiptakerfum við erlend lögreglulið og öryggisstofnanir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×