Enski boltinn

Vandræði á flugi Chelsea heim til Englands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsea menn fagna fjórða og síðasta markinu sem Willian skoraði.
Chelsea menn fagna fjórða og síðasta markinu sem Willian skoraði. Vísir/Getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, var mættur á blaðamannafund í dag en framundan er leikur á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Chelsea vann sannfærandi 4-0 sigur á Qarabag í Meistaradeildinni í vikunni en ferðalagið heim gekk ekki nógu vel.

Antonio Conte sagði frá því að flugvélin hafi ekki getað lent í fyrstu tilraun þegar hún kom til London eftir langt flug frá Bakú í Aserbaídsjan. Það var sterkur vindur sem gerði flugmönnunum erfitt fyrir. Það tókst þó að lenda og allir komust heilu og höldnu frá flugferðinni á fimmtudaginn.

Conte talaði vissulega um ferðalagið en tók það jafnframt fram að liðsmenn Chelsea væru ekki að leita sér að afsökunum fyrir leikinn við Liverpool. Hann sagði líka æfingin í dag hafi gengið vel.

Chelsea liðið hefur unnið alla leiki sína í nóvember án þess að fá á sig mark og ennfremur síðustu fjóra leiki sína í ensku úrvalsdeildinni eða alla leiki síðan að liðið tapaði 2-1 á móti Crystal Palace 14. Október síðastliðinn.

Leikur Liverpool og Chelsea fer fram á Anfield, heimavelli Liverpool, og hefst klukkan 17.30 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×