Erlent

Bob Dylan sækir loksins Nóbelinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bob Dylan.
Bob Dylan. Vísir/EPA
Tónlistarmaðurinn Bob Dylan mun sækja bókmenntaverðlaun Nóbels nú um helgina. Nóbelsnefndin tilkynnti í október að hann hefði unnið til verðlaunanna en hann hefur ekki sótt þau, eða flutt erindi, eins og verðlaunahafar þurfa að gera til að fá verðlaunaféið.

Dylan mun halda tónleika í Stokkhólmi 1. og 2. apríl og mun nota tækifærið til að sækja verðlaunin. Hann bað þó um að móttaka verðlaunanna yrðu ekki opin fjölmiðlum. Þá ætlar hann ekki að flytja erindi, heldur senda myndbandsupptöku. Dylan þarf að gera það fyrir júní, annars fær hann ekki verðlaunaféið.

Eftir að akademían tilkynnti að Dylan myndi hljóta verðlaunin tók það tónlistarmanninn tvær vikur að tjá sig og þá sagði hann að heiðurinn hefði gert hann orðlausan.

Þá mætti hann ekki á verðlaunaathöfnina í desember, vegna áætlana sem hann hafði þegar gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×