Innlent

Jeppi brann til kaldra kola við Gígjökul

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bíllinn er gjörónýtur eftir brunann.
Bíllinn er gjörónýtur eftir brunann. mynd/Anton Kári Halldórsson
Lögreglunni á Suðurlandi barst tilkynning klukkan 15:13 í gær um bíl sem var að brenna á Þórsmerkurvegi við Gígjökul. Bíllinn brann til kaldra kola en hann var í eigu ferðaþjónustufyrirtækisins Boreal – Super Jeep Excursions.

Engir farþegar voru um borð í bílnum en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni ók íslenskur leiðsögumaður honum inn á svæðið þar sem  hann var með fjóra unga Þjóðverja í fjallaferð.

Leiðsögumaðurinn og ferðamennirnir voru í námunda við bílinn þegar eldurinn kom upp og náði leiðsögumaðurinn með snarræði að bjarga eigum ferðamannanna úr bílnum, þar með talið vegabréfum þeirra.

Ekki er vitað um eldsupptök en jeppinn er gjörónýtur og var fjarlægður af vettvangi í gær þegar slökkvilið sem kom á staðinn hafði slökkt eldinn. Ökuleiðsögumaðurinn og ferðamennirnir voru aðstoðaðir til byggða af björgunarliði og var síðan bíll frá fyrirtækinu sendur eftir þeim.

Ingi Þorbjörnsson, eigandi Boreal – Super Jeep Excursions, segist ekki telja að bruni bílsins sé mikið tjón fyrir fyrirtækið þar sem það sé að öllum líkindum tryggt fyrir atvikum af þessu tagi. Fyrir mestu sé að enginn hafi verið í hættu eða slasast í brunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×