Innlent

Forstjóri HB Granda: „Við erum ekkert í neinum leik“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að verði yfir það í dag hvort að áform bæjarstjórnar Akraness um uppbyggingu á hafnarsvæði bæjarins breyti einhverju um þær fyrirætlanir útgerðarinnar að flytja landvinnslu botnfisks frá Skaganum og til Reykjavíkur. Alls starfa 93 í vinnslunni á Akranesi og herma heimildir fréttastofu að þeim verði öllum sagt upp þegar vinnslan flyst til höfuðborgarinnar.

Forstjórinn ræddi þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun og var þar meðal annars spurður hvað honum þætti um fyrirsögn Fréttablaðsins í dag þar sem stóð „Útspil HB Granda heppnaðist.“

„Við erum ekkert í neinum leik, það er alls ekkert þannig,“ sagði Vilhjálmur og þvertók fyrir að það væri eitthvað viðskiptatrikk að tilkynna um flutning vinnslunnar frá Akranesi.

Vill ekki gefa upp hversu mikið sparast við að flytja vinnsluna

„Við erum núna að flytja landleiðina 7300 tonn af þorski í fyrra og 78 þúsund tonn að flytja landleiðina til Akraness til vinnslu. Eins og staðan er núna erum við að flytja allan þennan þorsk til baka [...] ýmist til Reykjavíkur eða út á Reykjanes. Þannig að þetta er einfaldlega bara mjög augljós hagræðingaraðgerð sem við eigum möguleika á að gera og erum búin að lýsa yfir áformum um að fara í.“

Aðspurður vildi Vilhjálmur ekkert gefa upp um það hvað fyrirtækið myndi spara sér mikið á því að flytja vinnsluna.

„Við getum í sjálfu sér ekkert verið að tína út svona tölur úr rekstri það segir sig alveg sjálft að það kostar all nokkuð að flytja allan þennan afla fram og til baka. Við vitum allar tölur en við erum hins vegar skráðir í Kauphöll á markaði og getum ekki verið að tína út einstakar tölur úr rekstrinum,“ sagði Vilhjálmur.

Því var þá velt upp af þáttastjórnanda hversu mikils virði vinnslan væri fyrir Akranes og samfélagið þar.

„Þetta náttúrulega hefur mikla þýðingu fyrir Akranes og við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta er grafalvarleg staða sem við erum í. Ég lít hins vegar á þetta sem varnarleik til að halda vinnslunni í landinu einfaldlega, það er bara farið að þrengja mjög að vinnslu,“ sagði Vilhjálmur.

Á sjávarútvegurinn að skila arðsemi eða á hann að vera til ölmusu?

Í gær var greint frá því að komið hefði til tals að útgerðarfyrirtækin myndu flytja vinnslu úr landi og vakti það nokkur viðbrögð enda ekki allir par hrifnir af því að þeir sem veiði fiskinn, auðlind þjóðarinnar, fari með hann úr landi og vinni hann þar. Um þetta sagði Vilhjálmur:

„Já, já, þetta er alltaf þessi spurning um það hvers er ætlast til af sjávarútveginum – á hann að skila arðsemi til þjóðarbúsins eða á hann að vera til ölmusu?“

Vilhjálmur sagði að í rekstri væri ríkasta samfélagslega ábyrgðin sú að hann geti gengið. Það væri samfélagslega óábyrgt hins vegar að vera í rekstri sem gengur ekki.

Fyrir liggur að HB Grandi hyggst greiða hluthöfum sínum 1,8 milljarða í arð af rekstri seinasta árs á aðalfundi sem haldinn verður síðar á árinu. Aðspurður hvort ekki mætti bíða með að greiða arðinn út vegna ástandsins sem ríkir nú hjá fyrirtækinu sagði Vilhjálmur:

„Það er líka spurning. Arður er  borgarður af rekstri ársins á undan, það er verið  að borga hluthöfum arð af rekstrinum 2016. Þetta nemur 3,8 prósentum af hlutafénu þannig að það má segja að hluthafar séu að hafa þarna 3,8 prósent vexti af sínu hlutafé.“

Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Svartur dagur í sögu Akranesbæjar

93 starfsmenn munu að öllum líkindum missa vinnuna hjá HB Granda í lok mánaðar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir stöðuna í bænum grafalvarlega.

Útspil HB Granda heppnaðist

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hefur lagt spilin á borðið og boðið HB Granda uppbyggingu sem kostar á annan milljarð króna. Forstjórinn gat ekki svarað hvort tilboðið breytti einhverju sem rætt verður í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×