Viðskipti innlent

Fjórtán sagt upp hjá NLFÍ í Hveragerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er rótgróin stofnun.
Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði er rótgróin stofnun. Vísir/Pjetur
Fjórtán starfsmönnum Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði hefur verið sagt upp störfum vegna fjárhagsörðugleika stofnunarinnar. Þá verður dvalargestum fækkað um þrjátíu prósent frá áramótum til að hagræða í rekstrinum.

Það er ekki bjart yfir starfsemi Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði því þar hefur verið stöðugur niðurskurður en aldrei eins mikill og núna.

Þjónustusamningur hefur verið við ríkið síðustu 27 ár en það kemur sífellt minna og minna fjármagn til starfseminnar

„Við erum búin að semja við Sjúkratrygginar um nýjan samning í eitt og hálft ár. Þeir hafa sýnt okkur heilmikinn skilning um okkar þjónustu og svo framvegis en ekki viljað gera neitt fyrir okkur. Okkar samningur er að renna út um áramótin,“ segir Haraldur Erlendsson, forstjóri Heilsustofnunarinnar.

Haraldur segir að nú hafi verið tekið sú ákvörðun að skera verulega niður í Hveragerði.

„Við erum að fækka dvalargestum um þrjátíu prósent sem eru í húsi að jafnaði. Þannig að það er nánast þriðjungslækkun. Það er mjög alvarlegt og mesti niðurskurður á okkar þjónustu frá upphafi,“ segir Haraldur.

Starfsmönnum hefur verið sagt upp á Heilsustofnun af þeim eitt hundrað starfsmönnum sem vinna hjá stofnunni.

„Þetta eru eitthvað um tíu stöðugildi en þetta gætu verið um fjórtán starfsmenn, eitthvað þannig. Sumir eru í föstum stöðum, aðrir hafa verið lausráðnir vegna opinna samninga hjá okkar. Þetta er náttúrulega umtalsverður fjöldi af okkar starfsfólki. Við höfum bara verið í sorgarferli síðan í september og mjög náttúrulega erfitt hjá öllum starfsmönnum. Það hafa allir verið með áhyggjur af sínu starfi. Nú er komið á hreint hverjir verða áfram og hverjir verða áfram. Þetta er náttúrulega bara gríðarlega sárt fyrir alla.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×