Innlent

Ferðaþjónustufyrirtæki gera sextán ára stúlku kleift að láta draum sinn rætast

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í gær setti Margét Inga Gísladóttir inn fyrirspurn á Bakland ferðaþjónustunnar og bað um hugmyndir að ódýrum ferðum fyrir hina sextán ára Emily - sem hefur lengi dreymt um að komast til Íslands.

Stúlkan er með sjaldgæfan sjúkdóm, Cystic Fibrosis, eins og eins árs gömul dóttir Margrétar, og eru Margrét og móðir Emily saman í spjalli mæðra barna með sjúkdóminn.

Sjúkdómurinn veldur því að lungun eyðileggjast smám saman og er Emily langt leidd af sjúkdómnum.

„Þær vildu reyna að koma á meðan hún er ennþá ferðafær. Hún er orðin mjög lasin og er nýlega búin að vera á sjúkrahúsi þar sem hún var mjög veik- þannig að það var hennar draumur að koma hingað," segir Margrét.

Margrét hefur fengið um sjötíu svör við færslunni og þar af fjölmörg tilboð um fría þjónustu fyrir mæðgurnar.
Margrét fékk ótrúlega góð viðbrögð við fyrirspurninni. Hún hefur fengið tugi svara og skilaboða þar sem ferðaþjónustufyrirtæki bjóða mæðgunum í hinar ýmsu ferðir, til að mynda í hestaferð, jeppaferð, hvalaskoðun og hellaferð. En einnig hefur þeim verið boðin frí gisting og matur, fríar samgöngur og svo mætti lengi telja.

Mæðgurnar eru í skýjunum og eiga í vændum eftirminnilega ferð á Íslandi í júlí.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 þakkar Emily kærlega fyrir og er hún himinlifandi yfir að geta látið draum sinn rætast.

Móðir hennar bendir á að það sé mjög dýrt að fá meðferð og lyf við sjúkdómi Emily úti í Bandaríkjunum. Því hafi hún ekki getað uppfyllt aðrar þarfir Emily og þær hafi lítið milli handanna. „Sem móðir þá er ég svo innilega þakklát fyrir að þið hjálpið mér að gera þennan draum að veruleika," segir hún meðal annars í viðtalinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×