Ökumaður var handtekinn við reglubundið eftirlit lögreglu í Breiðholti laust fyrir miðnætti í gær. Mikið magn af áfengi, bæði sterkt vín og bjór, fundust í bílnum og einnig talsvert af peningum.
Maðurinn var fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla, en látinn laus að því loknu. Lagt var hald á áfengið og peningana, að því er segir í skeyti frá lögreglu.
Þá barst lögreglu tilkynning um hugsanlega ölvaðan ökumann sem hafði ekið utan í kyrrstæðan bíl og stungið af. Fyrr um kvöldið hafði verið tilkynnt um sama bíl í Kópavogi þar sem honum var ekið á vegg. Bíllinn fannst síðan mannlaus í Vesturbænum, en ökumaðurinn kom síðan gangandi til lögreglumanna með bíllyklana. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Lögregla var jafnframt kölluð til vegna konu sem var ofurölvi í miðbæ Reykjavíkur. Konan hafði bitið dyravörð og var „alveg óviðráðanleg,“ líkt og það er orðað í tilkynningu. Hún var handtekin og vistuð í fangageymslu.
Fundu mikið af áfengi og peningum í bílnum
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
