Innlent

Norska rannsóknarskipið komið til hafnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór.
Mynd af Seabed Constructor sem tekin var um borð í varðskipinu Þór. Mynd/Landhelgisgæslan
Norska rannsóknarskipið Seabed Constructor er komið til hafnar í Reykjavík. RÚV greinir frá.

Skipið lagðist að bryggju við Skarfabakka í Reykjavík á áttunda tímanum í morgun en í gær stefndi Landhelgisgæslan skipinu til lands vegna gruns um að það hefði stundað ólöglegar rannsóknir í íslensku efnahagslögsögunni.

Skipið hafði lagt úr höfn í Reykjavík 22. mars og hafði það haldið sig á afmörkuðu svæði um 120 sjómílur suðaustur af landinu.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar óskaði skýringa á athöfnum skipsins en fengust óljós svör og því var ákveðið að skipinu yrði stefnt til hafnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun nú taka við rannsókn málsins og verður tekin skýrsla af skipstjóranum og dagbækur og búnaður skipsins rannsakaður.

Frétt uppfærð kl. 10:07: 

Í tilkynningu frá lögmanni félagsins Advanced Marine Services, Braga Dór Hafþórssyni, kemur fram að skipið Seabed Constructor sé í leiðangri á vegum félagsins, í þeim tilgangi að bjarga verðmætum úr tuttugustu aldar fraktskipi sem sökk innan efnahagslögsögu Íslands. 

Félagið Advanced Marine Services sé félag sem sé skráð á Cayman eyjum en hafi starfsemi í Bretlandi. 

Tekið er fram að félagið, skipstjóri skipsins og áhöfn þess hafi farið í einu og öllu að tilmælum íslenskra laga sem og ákvæðum þjóðarréttar vegna verkefnisins og eru í fullu samstarfi við íslensk yfirvöld vegna málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×