„Ég hóf keppnina á milliregndekkjum og ég þurfti bara að einbeita mér að því að halda bílnum á brautinni. Ég er svo spenntur fyrir framhaldinu því þessi barátta við Ferrari er raunveruleg,“ sagði Hamilton á verðlaunapallinum.
„Ég var bara óheppinn með það að öryggisbíllinn skemmdi tilraun mína til að gera eitthvað annað. Eftir að ég losnaði úr lestinni með Kimi [Raikkonen] átti ég afar spennandi keppni. Hefði hún þróast aðeins öðruvísi þá hefði ég geta keppt meira við Lewis,“ sagði Vettel á verðlaunapallinum.
„Þetta var erfitt í dag. Ég var ekki alveg með rétt jafnvægi í bílnum eftir að hafa ekki tekið þátt í tímatökunni í gær. Það er mikill bónus að ná verðlaunapallinum í dag. Ég bjóst ekki við því enda ræsti ég sextándi,“ sagði Max Verstappen á verðlaunapallinum. Verstappen ók afspyrnu vel í dag, hann ræsti 16. en endaði þriðji.
„Þetta er eitthvað sem við þurfum að venjast, hörð barátta við Ferrari er komin til að vera í ár. Valtteri [Bottas] kastaði þessu frá sér í upphafi fyrir aftan öryggisbílinn. Hann þarf bara að læra af þessu og halda svo áfram, hann getur það,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.

„Sem lið er frábært að ná þriðja og fjórða sæti. Ég hefði viljað geta gert meira undir lokin til að reyna að stela verðlaunasætinu af Max,“ sagði Daniel Ricciardo sem varð fjórði á Red Bull bílnum í dag.
„Bíllinn var góður þegar dekkin voru ný en við virtumst missa framdekkin hratt. Við hefðum kannski átt að skipta um dekk fyrr. Það hefði getað skipt máli,“ sagði Kimi Raikkonen sem varð fimmti á Ferrari bílnum.
„Ég var að reyna að halda hita í dekkjunum fyrir aftan öryggisbílinn og missti stjórn á bílnum og snéri honum. Hraðinn var fínn undir lokin en þetta voru heimskuleg mistök hjá mér,“ sagði Valtteri Bottas sem endaði sjötti í dag á Mercedes bílnum.