Austurríski Þjóðarflokkurinn hefur náð samkomulagi við Frelsisflokkinn um ríkisstjórnarsamstarf, um tveimur mánuðum eftir kosningar þar í landi þar sem Þjóðarflokkurinn var stærsti flokkurinn án þess að ná ghreinum meirihluta.
Sebastian Kurz, formaður Þjóðarflokksins, er einungis 31 árs gamall og stefnir allt í að hann verði yngsti þjóðarleiðtogi Evrópu.
Þá verður Austurríki eina land Vestur-Evrópu með ríkisstjórn svo langt til hægri. Flokkarnir tveir voru áður saman í ríkisstjórn á árunum 2000 til 2005.
Kurz hefur varað við að hver sú ríkisstjórn sem mynduð verði undir hans stjórn verði jákvæð í garð Evrópusambandsins og Evrópusamvinnunnar. Frelsisflokkurinn hefur lengi gagnrýnt ESB og er á móti straumi innflytjenda til landsins.
Þjóðarflokkurinn og Jafnaðarmenn höfðu starfað saman í ríkisstjórn frá árinu 2007, en samstarfinu var slitið í vor og var í kjölfarið ákveðið að boða til kosninga.
