Innlent

Sakar forseta Frakklands um að hafa hótað Pólverjum

Birgir Olgeirsson skrifar
Forsætisráðherra Póllands, Beata Szydlo
Forsætisráðherra Póllands, Beata Szydlo Vísir/EPA
Forsætisráðherra Póllands, Beata Szydlo, hefur sakað forseta Frakklands um að reyna að kúga þjóð hennar vegna endurkjörs Donald Tusk sem forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins. 

Á vef fréttastofu BBC er haft eftir henni að það hafi verið óásættanlegt af Francois Hollande að hóta að skrúfa fyrir styrki til Póllands vegna slæmrar hegðunar. 

Pólskir ráðamenn reyndu að koma í veg fyrir að Tusk yrði endurkjörinn. Tusk var áður forsætisráðherra Póllands og hann og núverandi stjórnvöld Póllands hafa lengi eldað grátt silfur saman. 

Viðræður leiðtoga aðildarríkja innan Evrópusambandsins hafa staðið yfir vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr sambandinu. Voru þeir sammála um að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu sem leggur áherslu á einingu innan Evrópusambandsins. 

Leiðtogar Póllands tóku hins vegar ekki þátt í þessari yfirlýsingu. BBC segir það hafa orðið til þess að Hollande hafi sagt við kvöldverðarboð í gærkvöldi að ríku löndin í Vestur-Evrópu væru að halda Póllandi á floti með styrkjum. 

„Ef einhver segir að þú hagir þér ekki vel og fáir því ekki pening, það er óásættanlegt,“ sagði Szydlo á blaðamannafundi í dag.

Hún skaut einnig á óvinsældir Hollande í heimalandi hans. Hún spurði hvort hún ætti að taka hótanir alvarlega frá forseta sem mælist aðeins með fjögur prósent í ánægjukönnunum í Frakklandi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×