Enski boltinn

Chelsea stríðir Man. Utd: Ósigrað í langan tíma og hefur komist úr sjötta sæti upp í sjötta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pedro fagnar fljótasta marki úrvalsdeildarinnar þessa leiktíðina í október.
Pedro fagnar fljótasta marki úrvalsdeildarinnar þessa leiktíðina í október. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, mætir sínum gömlu lærisveinum í Chelsea á mánudagskvöldið þegar risaslagur átta liða úrslita enska bikarsins í fótbolta fer fram.

Chelsea-menn hita upp fyrir leikinn á heimasíðu sinni og bjóða þar upp á ansi góðan húmor þar sem skríbent Lundúnarliðsins bendir á skemmtilega staðreynd um gott gengi United í deildinni. Reyndar finnst stuðningsmönnum United þetta ekkert skemmtileg staðreynd en til þess er nú leikurinn gerður.

Manchester United hefur ekki tapað í deildinni í 17 leikjum í röð en síðast tapaði liðið einmitt fyrir Chelsea í október, 4-0. Pedro skoraði þá fyrsta mark leiksins eftir tæpar 30 sekúndur. Þrátt fyrir að vinna níu leiki og gera átta jafntefli í síðustu 17 hefur United ekki fært sig upp eða niður um sæti í töflunni í langan tíma.

„Mótherjar okkar á mánudaginn eru ekki búnir að tapa í deildinni síðan í október. Þetta hefur lyft þeim úr sjötta sæti upp í það sjötta,“ segir á heimasíðu Chelsea en United-liðið er búið að vera fast í sjötta sæti og klúðra tveimur tækifærum á að komast ofar með jafnteflum gegn Hull og Bournemouth.

„Síðasta tap United var auðvitað á Brúnni þar sem Pedro skoraði eftir 29,6 sekúndur sem er enn þá fljótasta markið sem hefur verið skorað á leiktíðinni,“ segir í upphitun Chelsea-manna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×