Viðskipti innlent

Sendu MDE upplýsingar um fjármálaumsvif dómara

Haraldur Guðmundsson skrifar
Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa, var dæmdur til fangelsisvistar í Al-Thani málinu svokallaða.
Ólafur Ólafsson, eigandi Samskipa, var dæmdur til fangelsisvistar í Al-Thani málinu svokallaða. Vísir/Vilhelm
Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) fékk á föstudag sendar upplýsingar um fjármálaumsvif dómara við Hæstarétt Íslands á árunum fyrir fall íslenska bankakerfisins árið 2008. Þeir Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, þrír fyrrverandi stjórnendur hjá Kaupþingi, og Ólafur Ólafsson, fyrrverandi hluthafi í bankanum, sendu upplýsingarnar en þær eru hluti af málsskjölum sem þeir sendu MDE vegna umfjöllunar dómstólsins um Al-Thani málið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjórmenningunum sem almanntengslafyrirtækið KOM sendi fjölmiðlum fyrr í dag. Telja þeir líkt og margoft hefur komið fram að brotið hafi verið á réttindum þeirra við rannsókn málsins og síðar meðferð þess fyrir dómstólum.

„Kæra Ólafs og fyrrverandi stjórnenda Kaupþings til MDE snýr meðal annars að vanhæfi dómara sem dæmdu málið í Hæstarétti í febrúar 2015. Í bréfinu til Mannréttindadómstólsins er bent á nýjar upplýsingar um hagsmunatengsl dómara sem komu fram í umfjöllun íslenskra fjölmiðla í desember síðastliðnum. Í kærunni kemur fram að Hæstiréttur Íslands hafi sýnt dómgreindarleysi við að meta hugsanlega hagsmunaárekstra í dómsmálum á hendur fyrrverandi stjórnendum þriggja stærstu viðskiptabankanna; Kaupþings, Glitnis og Landsbankans. Í öllum málum hefði verið tekist á um meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik sakborninga og þau því tengd innbyrðis,“ segir í tilkynningunni. 

Fjórmenningarnir voru allir sakfelldir í Hæstarétti í febrúar 2015 fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Hreiðar Már fékk þyngsta dóminn eða fimm og hálft ár í fangelsi, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár en Sigurður fjögur ár.

„Nýleg fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi hefur leitt í ljós að sumir dómarar sem sátu í Hæstarétti í þessum málum höfðu persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta, í sumum tilvikum umtalsverðra hagsmuna, vegna bankanna í aðdraganda falls þeirra árið 2008,“ segir í kærunni til Mannréttindadómstólsins, samkvæmt fréttatilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×