Enski boltinn

Átvaglið á bekknum til rannsóknar hjá enska sambandinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wayne fær sér vænan bita.
Wayne fær sér vænan bita. Mynd/Skjáskot
Wayne Shaw, varamarkvörður enska utandeildarliðsins Sutton, er orðinn heimsfrægur eftir að hann gæddi sér á böku í miðjum leik liðsins gegn Arsenal í enska bikarnum í gær.

Sjá einnig: Varamarkmaður Sutton afgreiddi á barnum og fékk sér bita á bekknum | Myndband

Í ljós hefur nú komið að Shaw vissi af því að veðmálafyrirtækið Sun Bets tók við veðmálum um að varamaður liðsins myndi gæða sér á böku á meðan leiknum stæði.

„Sun Bets var með líkurnar einn á móti átta að einhver okkar myndi borða böku. Ég ákvað að svara aðeins fyrir okkur og kýla á það. Allir varamennirnir voru komnir inn á og við vorum 2-0 undir,“ sagði Shaw.



Það stangast á við reglur enska knattspyrnusambandsins að taka þátt í veðmáli í tengslum við knattspyrnuleik á þennan hátt. Því er líklegt að mál Shaw verði tekið til umfjöllunar innan veggja sambandsins.

„Ég vissi ekkert um þetta. Hann er nú aftur búinn að koma sér í fréttir og líklega hefur frægðin stigið honum til höfuðs. En við munum koma honum aftur á jörðina,“ sagði Bruce Elliott, stjórnarformaður Sutton.

„Þetta kemur kannski ekki þeim sem þekkja hann mjög á óvart. En þetta er alger toppmaður,“ sagði hann enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×