Erlent

Biðst afsökunar á því að fljúga ítrekað með einkaþotum í vinnuna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price.
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price. Vísir/AFP
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Tom Price, hefur beðist afsökunar á því að hafa flogið með einkaþotum til að sinna opinberum erindagjörðum. Hann hyggst greiða kostnað vegna flugferðanna til baka og lofar bandarískum skattgreiðendum að fljúga með almennum flugfélögum vegna vinnu héðan í frá. BBC greinir frá.

Price hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ferðir sínar með einkaþotunum en hann baðst afsökunar á þeim í dag. Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í gær að hann væri „ekki ánægður“ með ferðamáta heilbrigðisráðherrans.

Opinberir starfsmenn í Bandaríkjunum, utan þeirra sem starfa við þjóðaröryggismál, eru skyldaðir til að ferðast með almennum flugfélögum vegna vinnu sinnar. Rannsókn Politico leiddi í ljós að Price hafði flogið 24 sinnum með einkaþotu síðan í byrjun maí en heildarkostnaður vegna flugferðanna er áætlaður um 300 þúsund Bandaríkjadalir (31,6 milljónir íslenskra króna).

„Í dag mun ég skrifa ávísun upp á útgjöld mín vegna flugferða í einkaþotum. Skattgreiðendur munu ekki borga krónu fyrir sæti mitt í slíkum vélum,“ sagði í yfirlýsingu sem Price sendi frá sér í dag.

„Sér til“ hvort hann víki Price úr starfi

Auk Price sæta tveir meðlimir ríkisstjórnar Trumps rannsókn vegna notkunar á einkaþotum við störf sín. Fjármálaráðherrann, Steven Mnuchin, er sakaður um að hafa ræst sérstaklega út þotu til að skoða sólmyrkvann í ágúst síðastliðnum ásamt konu sinni.

Þá hefur Scott Pruitt, yfirmaður Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna, eytt um 58 þúsund dölum (rúmum 6 milljónum íslenskra króna) í flug með einkaþotum.

Aðspurður sagðist Trump ætla að „sjá til“ hvort hann víki Price úr starfi vegna ferðalaganna en Price er meðal annars grunaður um að hafa flogið milli Washington DC til borgarinnar Nashville í Tennessee-ríki. Þar varði hann tæpum 90 mínútum á skipulögðum viðburðum og fékk sér að því búnu hádegisverð með syni sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×