Innlent

Sjötíu ferjaðir yfir Steinavötn með þyrlu Landhelgisgæslunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um sjötíu manns voru ferjaðir yfir Steinavötn í dag með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Um sjötíu manns voru ferjaðir yfir Steinavötn í dag með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan/Teitur Gunnarsson
Þyrla landhelgisgæslunnar heldur áfram aðgerðum á flóðasvæðunum á suðaustanverðu landinu á morgun. Áhöfn þyrlunnar ferjaði um sjötíu manns yfir Steinavötn í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Ákveðið hefur verið að þyrlan verði á Höfn í Hornafirði í nótt og haldi svo áfram aðgerðum á morgun eins og þarft er.

Áhöfn þyrlunnar hefur í dag aðstoðað lögreglu, björgunarsveitir, íbúa og ferðamenn á flóðasvæðum á suðausturlandi. Á meðal verkefna áhafnarinnar var að ferja hóp fólks, alls um sjötíu manns, yfir Steinavötn en brúin yfir ána þykir orðin mjög ótrygg vegna vatnavaxta.

Sjá einnig: Á þriðja tug kinda bjargað undan aurskriðu

Þá var Starfsfólk á Höfn, bæði lögreglumaður og ljósmóðir, flutt til vinnu með þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun eins og Vísir greindi frá í dag. Ferðamenn hafa þurft að skilja bíla sína eftir á lokunarsvæðum og dæmi eru um að bílaleigur hér á landi leggi veruleg gjöld á ferðamenn vegna þessa.

Gríðarleg úrkoma hefur verið á suðausturlandi undanfarna daga og mikið vatn liggur nú á túnum og láglendi.

Brúin yfir Steinavötn þykir orðin mjög ótrygg vegna vatnavaxtaLandhelgisgæslan/Teitur Gunnarsson

Tengdar fréttir

Áfram mun rigna á Austurland

Veðurstofan gerir áfram ráð fyrir fyrir talsverðri, samfelldri úrkomu fram undir kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×