Innlent

Hyggjast kæra ákvörðun um að heimila niðurrif Sundhallar Keflavíkur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Hollvinasamtök Sundhallar Keflavíkur hyggjast kæra ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar þess efnis að heimila niðurrif sundhallarinnar. Talsmaður samtakanna segir ákvörðunina sýna metnaðarleysi af hálfu bæjaryfirvalda.

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að heimila niðurrif gömlu Sundhallar Keflavíkur, en miklar deilur hafa skapast um fyrirhuguð niðurrif hallarinnar. Ragnheiður Elín Árnadóttir, talsmaður hollvinasamtaka sundhallarinnar segir ákvörðunina virðingarleysi.

„Þetta er auðvitað alveg ómöguleg niðurstaða að mínu mati. Við erum ekki búin að syngja okkar síðasta í þessu máli. Niðurstaða Minjastofnunnar, sem kom um daginn eftir fund húsafriðunarnefndar, er kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytisns. Við erum núna að undirbúa kæru til ráðuneytisins þar sem við förum fram á að byggingin verði friðlýst. Ég vona svo sannarlega að við getum komið kærunni inn áður en hafist verði handa að rífa húsið,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Hún segir húsið merkilegt en íbúar Keflavíkur söfnuðu sjálfir fyrir húsinu á sínum tíma.

„Mér finnst að við eigum að sýna fólkinu og sögunni mikla virðingu. Það stendur á einstaklega fallegum stað. Það er teiknað af einum af okkar frægasta arkitektúr, Guðjóni Samúelssyni og ég veit ekki til þess að önnur sveitarfélög í landinu myndu hafa að hugmyndaflug að samþykkja það og leggja nánast til að sögufræg bygging eftir Guðjón Samúelsson, yrði rifin. Mér finnst það sýna ótrúlegt metnaðarleysi og virðingarleysi af hálfu bæjaryfirvalda,“ sagði Ragnheiður Elín.

Sundhöll Keflavíkur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×