Viðskipti innlent

Rannveig skipuð í embætti aðstoðarseðlabankastjóra

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rannveig Sigurðardóttir.
Rannveig Sigurðardóttir. Mynd/Forsætisráðuneytið
Forsætisráðherra hefur skipað Rannveigu Sigurðardóttur í embætti aðstoðarseðlabankastjóra til fimm ára frá og með 1. júlí 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Alls sóttu fjórtán um embættið sem auglýst var laust til umsóknar 21. febrúar síðastliðinn. Sérstök matsnefnd var skipuð til að meta hæfni umsækjenda og mat auk Rannveigar þau Daníel Svavarsson, Guðrúnu Johansen, Jón Þ. Sigurgeirsson og Þorstein Þorgeirsson mjög vel hæf til að hljóta embætti aðstoðarseðlabankastjóra.

Rannveig Sigurðardóttir lauk fil. kand. prófi og meistaraprófi í hagfræði frá Gautaborgarháskóla og stundaði þar doktorsnám. Hún hefur frá árinu 2009 starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands og verið ritari peningastefnunefndar, ásamt því að vera staðgengill aðalhagfræðings bankans.

Rannveig starfaði áður sem hagfræðingur BSRB í um áratug og var aðalhagfræðingur ASÍ á árunum 1999-2002. Hún var ráðgjafi aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands á árunum 2002-2004 og hefur verið forstöðumaður greiningar- og útgáfudeildar á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands síðastliðin 14 ár. Auk þess að stunda rannsóknir og kennslu hefur Rannveig ritað fjölda greina um efnahags- og peningamál og skyld efni.

Þá hefur forsætisráðuneytið ákveðið að birta endanlega umsögn matsnefndar um hæfni umsækjenda. Umsögnina má nálgast hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×