Skoðun

Álagið hefur afleiðingar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar
Hversu hratt eigum við að hlaupa í vinnunni? Þetta er ein algengasta spurningin sem ég fæ frá félagsmönnum aðildarfélaga BSRB. Það er áhyggjuefni hvernig álagið á starfsmenn sem sinna opinberri þjónustu hefur aukist verulega á undanförnum árum þrátt fyrri uppsveiflu í efnahagslífinu.

Við sjáum það hvert sem litið er að starfsemi hins opinbera er rekin á lágmarksmönnun. Okkar félagsmenn eru stoltir af því að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem heyra undir almannaþjónustuna. Þeir hafa lagt mikið á sig við að veita góða þjónustu þrátt fyrir mikið álag en það er ljóst að eitthvað þarf undan að láta.

Afleiðingarnar af undirmönnun og álagi blasa við okkur. Tölur frá styrktarsjóðum aðildarfélaga BSRB sýna að heilsu félagsmanna hrakar. Tveir af hverjum þremur starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga eru konur og er það sama hlutfall kvenna sem leitar til VIRK vegna streitu og álags sem leiðir til kulnunar, geðsjúkdóma og stoðkerfisvandamála.

Rannsóknir sýna að starfsfólk í velferðarþjónustu upplifir verri líkamlega og andlega heilsu og minni starfsánægju samanborið við aðrar starfsstéttir. Ítrekað hefur verið bent á að ein besta leiðin til að fyrirbyggja þetta er að vinna gegn streituvöldum á vinnustað, bæta aðstæður stjórnenda og vinnuumhverfis í heild.

Í nýrri ársskýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að slysin séu flest í opinberri þjónustu og þar er lögreglan sérstaklega nefnd. Hér verður að bregðast við og tryggja að opinberir aðilar fylgi lögum og reglum um vinnuvernd.

Almannaþjónustan gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu samfélagsins. Þetta eru störfin í heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni, menntun, löggæslu og víðar. Það má ekki veita neinn afslátt af mönnun, sér í lagi þegar skortur á starfsfólki hefur svo alvarlegar afleiðingar. Tryggja verður gott starfsumhverfi og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða vegna aukinnar slysa- og veikindafjarveru. Þetta er samfélagslegt verkefni og á því bera opinberir atvinnurekendur og stjórnvöld ábyrgð.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×