Katrín Sif Sigurgeirsdótti formaður samninganefndar ljósmæðra segir ástandið á fæðingadeildum landsins grafalvarlegt og gagnrýnir fjármálaráðherra harðlega fyrir að svara ekki beiðni um fund.
„Mér finnst þetta undarlegt að menn geti verið á það háum stalli að þeir geti ekki stigið niður og átt samtal þegar staðan er orðin svona alvarleg. Hann gaf út á Alþjóðadegi ljósmæðra þann 5. maí að kröfur ljósmæðra væri algjörlega óáættanlegar, það er það eina sem ég hef séð frá honum og hann hefur beina aðkomu að þessum kjarasamnningum. Mér þykir þetta ábyrgðarleysi, undarleg vinnubrögð og hroki verð ég að segja,“ segir Katrín.
Hún gagnrýnir enn fremur að Bjarni hafi þegið tugprósenta launahækkun á síðasta ári án athugasemda en haldi því svo fram að kröfur ljósmæðra ógni stöðuleika. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði ekki beiðni fréttastofu um viðtal í dag.
Mega ekki gefa upp kröfur
Katrín segist ekki geta gefið upp nákvæmlega hvað ljósmæður biðji um því ríkissáttasemjari fari fram á trúnað um efni funda.
„Okkur er gert að tala ekki um neitt það sem fer fram á fundum og ef við brjótum það hefur fjölmiðlabann verið orðað við okkur,“ segir Katrín.
Katrín er meðal þeirra ljósmæðra sem hefur sagt upp störfum sínum.
„Ég hef sagt upp störfum mínum, og mun láta af störfum 1. september ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma,“ segir Katrín.
Mjög slæm mönnun
Alls hafa 30 ljósmæður sagt upp á Landspítalanum, tólf uppsagnir tóku gildi í gær og er fæðingardeildin nú rekin með lágmarksmönnun að sögn Lindu Kristmundsdóttur framkvæmdastjóra kvenna-og barnasviðs.
„Við erum að keyra á um 60% mannskap, þannig að mönnunin er mjög slæm,“ segir Linda.