Erlent

Rankaði við sér í líkhúsi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Konan þótti líkleg.
Konan þótti líkleg. Vísir/getty
Suður-afrískri konu er nú veitt aðhlynning eftir að hafa fundist á lífi í frysti líkhúss. Konan hafði verið flutt í líkhúsið í norðurhluta Suður-Afríku eftir að hún var úrskurðuð látin eftir bílslys.

Talsmenn sjúkraflutningafyrirtækisins segja að konan hafi ekki sýnt nokkurt lífsmark í sjúkrabílnum. Það hafi ekki verið fyrr en starfsmaður líkhússins leit inn í líkfrystinn sem komið hafði í ljós að hún andaði enn.

Að sögn breska ríkisútvarpsins er málið nú til rannsóknar, en konan hefur ekki verið nafngreind. Sjúkraflutningafyrirtækið neitar allri sök í málinu og segir að ekkert bendi til vanrækslu af hálfu starfsmanna þess.

Nokkrir slösuðust í umræddu bílslysi og tveir eru sagðir hafa látið lífið. Hvort fyrrnefnd kona sé í þeim fjölda er óljóst.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem fregnir berast af upprisu sem þessari. Það gerðist síðast í janúar þegar fangi á Spáni vaknaði aftur til lífsins, örfáum klukkustundum áður en átti að kryfja hann.

Þá hafa Suður-Afríkumenn kynnst svipuðum málum. Karlmaður rankaði við sér í líkhúsi í landinu árið 2011. Fimm árum síðar var annar maður fluttur á lífi í líkhús eftir árekstur. Hann er sagður hafa látist fimm klukkustundum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×