Íslenski boltinn

Halda FH-ingar áfram að hefna?: 10-2 á móti Stjörnumönnum frá 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnumenn fagna í Kaplakrika í byrjun október 2014.
Stjörnumenn fagna í Kaplakrika í byrjun október 2014. Vísir/Andri Marinó
Stórleikur 11. umferðar Pepsi-deildar karla er jafnframt lokaleikur hennar og eini leikur kvöldsins. FH-ingar fá Stjörnumenn í heimsókn í Kaplakrikann klukkan átta í kvöld og er leikurinn einnig sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Hvorki FH-ingar né Stjörnumenn munu líklega aldrei gleyma 4. október 2014 þegar lið þeirra mættust í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

FH-ingar voru búnir að vera á toppnum samfellt síðan í júní og nægði jafntefli í leiknum. Stjörnumenn tryggðu sér hinsvegar titilinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

FH-ingar voru mjög ósáttir út í dómara leiksins, fyrra mark Stjörnumanna var augljós rangstaða og þá voru Hafnfirðingar allt annað en sáttir með vítaspyrnudóminn. Stjörnumenn fögnuðu aftur á móti fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli sínum.

Það má vissulega líta þannig á að FH-ingar hafi verið að hefna fyrir þetta sára tap undanfarin sumur. Stjörnumenn hafa nefnilega ekki sótt stig í Hafnarfjörðinn síðan í október 2014.

FH hefur unnið þrjá síðustu leiki liðanna í Kaplakrika og það með markatölunni 10-2. FH vann 4-0 sigur í ágúst 2015, 3-2 sigur í ágúst 2016 og 3-0 sigur í júní 2017.

Tveir af síðustu fjórum tapleikjum Stjörnuliðsins í Pepsi-deildinni hafa komið í Kaplakrika.

Liðin hafa mæst þrisvar sinnum í Garðabæ á þessum tíma og allir leikirnir hafa endað með 1-1 jafntefli. Stjörnumenn hafa því ekki unnið FH í Pepsi-deildinni síðan að þeir „stálu“ Íslandsmeistaratitlinum í uppbótartíma 4. október 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×