Erlent

Undirbúa vantraust á ríkisstjórn Theresu May

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Nú er að duga eða drepast fyrir Boris Johnson, sem lengi hefur verið talinn líklegur forsætisráðherra
Nú er að duga eða drepast fyrir Boris Johnson, sem lengi hefur verið talinn líklegur forsætisráðherra Vísir/Getty
Breskir fjölmiðlar fullyrða að vantrauststillaga verði lögð fram á ríkisstjórn Theresu May á morgun að öllu óbreyttu.

Fréttastofa sjónvarpsstöðvarinnar ITV hefur heimildir fyrir því að verið sé að safna undirskriftum Íhaldsmanna sem sætti sig ekki við lendinguna í Brexit málinu. Ekki sé búist við að það hafist í dag en fastlega megi gera ráð fyrir að vantrauststillagan verði lögð fram á morgun.

Rétt áðan tilkynnti talsmaður Theresu May að hún myndi berjast með kjafti og klóm gegn vantrauststillögu ef hún kæmi fram.

Eins og staðan er nákvæmlega þessa stundina þykir May líkleg til að standa vantraustið af sér en hlutirnir virðast vera að gerast mjög hratt á bakvið tjöldin og ómögulegt að segja hver staðan verður þegar upp er staðið á morgun.

David Davis, sem sagði af sér sem Brexit ráðherra í gær, segist sjálfur ekki ætla að reyna að ná formannsstólnum af May en Boris Johnson hefur ekki lofað neinu slíku.

Hann var að sögn hársbreidd frá því að verða formaður, og þarmeð forsætisráðherra, eftir afsögn Davids Cameron árið 2016. May hafði þá betur í leiðtogaslagnum eftir að Johnson var svikinn af Michael Gove, gömlum bandamanni sínum.

Ekki er vitað hvað Johnson getur reitt sig á mikinn stuðning ef May hrökklast frá en hann hefur lengi verið talinn metnaðarfullur framtíðarleiðtogi Íhaldsmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×