Erlent

May mætir Corbyn í Brexit-kappræðum

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins.
Theresa May, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins. Getty/WPA Pool
Breskir sjónvarpsáhorfendur mega líklegast eiga von á líflegum umræðum þann 9. desember næstkomandi þegar Theresa May, forsætisráðherra landsins, og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, munu mætast í kappræðum um Brexit-samninginn.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkti um helgina samninginn um útgöngu Bretlands og pólitíska yfirlýsingu um framtíðarsamskipti Bretlands og sambandsins.

May mun á næstu dögum ferðast vítt og breitt um Bretland til að fá Breta til að fylkja sér á bakvið samninginn, en þingið mun svo greiða atkvæði um hann 11. desember. Breskir stjórnarandstæðingar og stjórnarliðar hafa margir harðlega gagnrýnt samninginn og sagst ætla að greiða atkvæði gegn honum, meðal annars Corbyn og Arlene Foster, leiðtogi DUP, flokksins sem ver minnihlutastjórn May falli.

Fulltrúar ESB hafa sagt að ekki verði samið upp á nýtt, að þetta sé eini samningurinn sem í boði verði.

„Ég er reiðubúin að ræða við Jeremy Corbyn. Af því að ég er með áætlun. Það er hann ekki,“ segir May í samtali við The Sun.

Ekki liggur fyrir hvort fleirum verði boðið til kappræðnanna, en Vince Cable, leiðtogi Frjálslynda flokksins, og Skoski þjóðarflokkurinn hafa krafist þess að fá að taka þátt.


Tengdar fréttir

Samþykktu Brexit-samninginn

Leiðtogar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu Brexit-samninginn á fundi sínum í Brussel í morgun.

Þarf að snúa 85 þingmönnum

Leiðtogar Evrópusambandsríkja samþykktu Brexit-plöggin í gær. Segja betri samning ekki mögulegan fyrir Breta. Stærðfræðin á breska þinginu erfið fyrir forsætisráðherra sem þarf að snúa 85 þingmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×