Lífið

Bill Murray í átökum við ljósmyndara

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Leikarinn og grínistinn Bill Murray lenti í átökum við ljósmyndara á veitingastað í Martha‘s Vineyard á miðvikudaginn. Ljósmyndarinn Peter Simon, sem er 71 árs gamall, segist hafa verið á veitingastaðnum til að taka myndir af hljómsveit sem var að spila þar, fyrir héraðsblað. Simon segir Murray hafa ráðist á sig og sakað sig um að taka myndir af sér.

Murray sagði lögregluþjónum að Simon hefði áreitt sig og tekið myndir af sér. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, sem Boston Globe kom höndum yfir, var Murray verulega reiður. Simon sagði á móti að hann hefði ekki tekið eina mynd af Murray. Hann væri ekki svokallaður „Paparazzi“ heldur hefði hann verið þarna til að taka myndir af hljómsveitinni og staðfesti ritstjóri blaðsins það við Boston Globe.



Simon segist hafa verið á dansgólfinu að taka myndir af hljómsveitinni og þaðan hafi hann farið í útskot til að skoða myndirnar. Hann segir Murray hafa gripið í sig að aftan og ýtt sér harkalega á vegg. Þá hafi Murray litið út fyrir að ætla að kyrkja Simon. Hann segist ekki hafa áttað sig á því að um Murray væri að ræða fyrr en nokkru seinna. Þá segir Simon að eftir atvikið hefði Murray helt vatni yfir sig og myndavélina sem hann var með.

Katherine Domitrovich, eigandi veitingastaðarins, segir Simon ekki hafa haft leyfi til að taka myndir þar inni og að hann hefði verið „pirrandi“. Simon segir það vera rangt. Meðlimir hljómsveitarinnar hefðu boðið honum að taka myndir. Domitrovich segir þó að Simon sé hér eftir óvelkominn á veitingastaðnum.

Hann segist vera að velta fyrir sér að kæra Murray. Í minnsta falli hefur hann farið fram á afsökunarbeiðni frá bæði Murray og Domitrovich.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.