Háskólanemi um tvítugt vann 41,4 milljónir króna í lottóútdrætti síðasta laugardag. Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að hann hafi verið pollrólegur og mjög ánægður þegar hann kom og sótti vinninginn.
Maðurinn, sem býr í foreldrahúsum, á að hafa heyrt um að lottópotturinn væri stór og komið við í Fjarðarkaupum til að kaupa miða.
„Það var svo á laugardagskvöldið, okkar maður háttaður og mundi þá eftir Lottóinu, fór inn á lotto.is, skoðaði tölurnar og sá einhverjar kunnuglegar. Miðinn var hins vegar úti í bíl og hann nennti alls ekki að klæða sig og sækja miðann, það gerði hann hins vegar um leið og hann vaknaði daginn eftir og grunurinn reyndist réttur, hann hélt á vinningsmiða sem á var vinningur upp á rúmlega 41,4 milljónir króna,“ segir í tilkynningunni.
Hann hyggst gefa sér góðan tíma til að ákveða næstu skref en ákvað þó að byrja á því að leyfa bílnum sínum að fara í gegnum alþrif svona fyrir jólin, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Nemi um tvítugt vann rúma 41 milljón
Atli Ísleifsson skrifar
