Samkvæmt dagskrá fundar velferðarnefndar Alþingis í morgun átti að taka á móti gestum vegna vinnu við þýðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Á dagskrá fundarins var einnig lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Meðal umsagna um það mál er erindi frá Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.
Fræðimenn rannsóknarsetursins hafa tilkynnt Steingrími J. Sigfússyni, forseta þingsins bréfleiðis, að þeir vinni ekki með nefndinni á meðan Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, situr þar áfram.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að óvíst væri hvaða áhrif ákvörðun fræðimannanna hefði á störf nefndarinnar.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti þingsins, segir stöðuna erfiða, þingið verði að geta reitt sig á faglega ráðgjöf og umsögn frá gestum nefnda.
Stundin greinir frá því í morgun að Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samtöl þingmannanna á barnum, hafi afhent skrifstofu Alþingis hljóðupptökurnar vegna umfjöllunar forsætisnefndar og siðanefndar þingsins um málið.
Innlent