Khashoggi var myrtur þann 2. október síðastliðinn en tyrknesk yfirvöld halda því fram að yfirvöld í Sádi-Arabíu hafi skipulagt morðið. Khashoggi hafði verið afar gagnrýninn á stjórnarhætti í heimalandi sínu.
Heimildarmaður CNN er sagður viðriðinn rannsókn á morðinu á Khashoggi. Hann hafi jafnframt lesið handrit af hljóðupptöku á morðinu og segir augljóst að um þaulskipulagða aðgerð hafi verið að ræða.
Ráðlagt að hlusta á tónlist til að dempa hljóðið í söginni
Á hljóðupptökunni, sem hefst þegar Khashoggi stígur inn á ræðisskrifstofuna, heyrist Khashoggi í átökum við hóp manna. Þá á hann að hafa sagt þrisvar stundarhátt „Ég get ekki andað“, sem jafnframt voru síðustu orð blaðamannsins áður en morðingjarnir réðu honum bana.Á upptökunni má einnig heyra þegar líkami Khashoggis var bútaður niður með sög og er morðingjunum ráðlagt að hlusta á tónlist til að dempa hljóðið. Þeir eiga einnig að hafa hringt símtöl til að upplýsa aðila á hinni línunni um gang mála.
Samkvæmt frétt CNN er handritið upprunnið hjá tyrknesku leyniþjónustunni. Heimildarmaðurinn er jafnframt sagður hafa lesið þýdda útgáfu af því. Hér má nálgast ítarlega umfjöllun CNN um handritið.
Ellefu hafa verið ákærðir í Sádí Arabíu fyrir morðið. Greint var frá því í gær að utanríkisráðherra Sáda hefði útilokað að mennirnir yrðu framseldir til Tyrklands.