Fótbolti

Capello: Ronaldo mun snúa aftur til Manchester

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gott var á milli Mourinho og Ronaldo þegar þeir voru saman hjá Real
Gott var á milli Mourinho og Ronaldo þegar þeir voru saman hjá Real vísir/getty
Fabio Capello, fyrrum landsliðsþjálfari Englands og knattspyrnustjóri Real Madrid, segir Cristiano Ronaldo vilja ganga til liðs við Manchester United til þess að sameinast Jose Mourinho á nýjan leik.

Framtíð Ronaldo hjá Real Madrid er í óvissu eftir orð hans í viðtali eftir sigur Madrid á Liverpool í Meistaradeild Evrópu þar sem hann gaf í skyn að hann hefði spilað sinn síðasta leik fyrir spænska stórveldið.

Zinedine Zidane, sem sagði upp starfi sínu sem knattspyrnustjóri Real Madrid á fimmtudag, á að hafa viljað skipta á Ronaldo og brasilísku stórstjörnunni Neymar hjá PSG en stjórnarmenn í Madrid studdu ekki þær hugmyndir.

PSG hefur áhuga á því að fá portúgalska markahrókinn til sín en Capello, sem stýrði Real í seinna skiptið á ferlinum tímabilið 2006-07, segir Ronaldo aðeins vera með einn áfangastað í huga og það sé Manchester United.

„Cristiano vill snúa aftur til Manchester United og spila undir stjórn Mourinho,“ sagði Ítalinn við Sky Sports.

„Ég held hann muni yfirgefa Real Madrid á endanum og snúa aftur til Englands. Hvenær veit ég þó ekki.“

Mourinho stýrði Real Madrid á árunum 2010-2013 og var gott samband á milli landanna Mourinho og Ronaldo á þeim tíma. Ronaldo fór til Real frá United árið 2009 en hann hafði farið ungur að árum til Manchester og undir handleiðslu Sir Alex Ferguson varð hann að einum besta fótboltamanni heims.

Ronaldo er hátt metinn í hjörtum stuðningsmanna United og Ed Woodward, stjórnarmaður United, hefur viljað fá Portúgalann aftur á Old Trafford síðan hann tók yfir leikmannamálum félagsins fyrir fimm árum.


Tengdar fréttir

Real vill Pochettino í stað Zidane

Real Madrid vill Mauricio Pochettino, stjóra Tottenham, sem sinn næsta stjóra ef marka má fréttir Sky Sports í morgun.

Ronaldo: Ég segi eitthvað eftir viku

Athygli vakti að Cristiano Ronaldo talaði í gær um feril sinn með Real Madrid í þátíð, nú hefur hann sagt að ástæðan fyrir því sé engin tilviljun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×