Fótbolti

15 dagar í HM: Þegar Zenga lokaði búrinu á heimavelli

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Zenga með einbeitinguna í lagi. Þessi glæsilega treyja og gullkeðjan lifa enn í minningu margra.
Zenga með einbeitinguna í lagi. Þessi glæsilega treyja og gullkeðjan lifa enn í minningu margra. vísir/getty
Ítalski markvörðurinn Walter Zenga setti met á HM 1990 á Ítalíu sem stendur enn. Þá virtist hreinlega ekki vera hægt að skora hjá honum.

Zenga gerði sér nefnilega lítið fyrir og hélt hreinu í fimm leikjum í röð. Það var ekki fyrr en í undanúrslitum keppninnar sem loksins tókst að skora hjá honum. Þá var ekki búið að skora hjá honum í 518 mínútur.

Það mark gerði Argentínumaðurinn Claudio Caniggia með skalla. Sá leikur endaði í vítaspyrnukeppni þar sem Zenga náði ekki að verja neina af spyrnum Argentínumanna sem fyrir vikið komust í úrslit. Ítalía vann svo England, 2-1, í leiknum um bronsið.

Leikirnir fimm þar sem Zenga hélt hreinu voru gegn Austurríki, Tékkóslóvakíu og Bandaríkjunum í riðlinum. Svo hélt hann hreinu gegn Úrúgvæ í 16-liða úrslitum keppninnar sem og gegn Írum í átta liða úrslitunum.  Magnaður árangur.

Zenga, sem er orðinn 58 ára gamall í dag, átti magnaðan feril og var lengi vel talinn vera besti markvörður heims. Hann er líka almennt talinn vera einn besti markvörður allra tíma.

Lungann úr ferlinum var hann hjá Inter. Kom þangað sem unglingur árið 1971 en spilaði sinn fyrsta aðalliðsleik með félaginu árið 1978.

Hann stóð í marki Inter til ársins 1994 og náði að spila 328 leiki fyrir félagið. Svo fór hann í tvö ár til Sampdoria og síðasta leiktíðin á Ítalíu var hjá Padova.

Zenga fagnar einu sinni sem oftar á HM 1990.vísir/getty
Síðustu tvö ár ferilsins voru hjá New England Revolution í Bandaríkjunum en hanskarnir fóru upp í hillu árið 1999. Hann spilaði 58 landsleiki fyrir Ítalíu. Þann síðasta árið 1992.

Í dag þjálfar hann Crotone á Ítalíu en hann hefur víða komið við á þjálfaraferli sínum sem hófst hjá New England Revolution.

Hann er búinn að þjálfa í Rúmeníu, Serbíu, Tyrklandi, Sádi Arabíu og Englandi þar sem hann var til skamms tíma þjálfari Úlfanna fyrir tveimur árum síðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×