Innlent

Konan sem slasaðist í Reynisfjöru er látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hún var áttræður erlendur ferðamaður á ferð um Ísland með fjölskyldu sinni.
Hún var áttræður erlendur ferðamaður á ferð um Ísland með fjölskyldu sinni. Vísir
Kona sem flutt var slösuð á sjúkrahús í Reykjavík í gær vegna höfuðáverka sem hún hlaut eftir að hún féll á göngustíg sem liggur frá bílastæðinu við Reynisfjöru niður í fjöruna er látin. Hún var erlendur ferðamaður, fædd 1938, á ferð um Ísland með fjölskyldu sinni að því er segir í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurlandi.

Tilkynning barst neyðarlínu um kl. 14:30 í gær og voru viðbragðsaðilar á Suðurlandi þegar kallaðir til. Konan var flutt til móts við þyrlu LHG með sjúkrabifreið og svo áfram með þyrlunni til Reykjavíkur.

Alls hafa þrettán látið lífið í banaslysum það sem af er ári í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Tveir létu lífið við veiðar í Þingvallavatni fyrir tíu dögum. Fjórtán létust í banaslysum í umdæminu allt árið í fyrra.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:00


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×